Kári Energy er þróunarverkefni sem bandaríska þróunarfélagið Hecate Wind vinnur að og felst í því að skoða fýsileika að setja upp vindmyllugarð (e. offshore wind farm) suðaustur af Íslandi. Verkefnið gengur út á að koma fyrir 140-160 vindmyllum, 14 megavött hver, á hafi úti 20-40 km frá landi. Uppsett afl Kára væri 2000 megavött. Orkan verður flutt til Bretlands með orkustreng sem mun hvorki koma upp á land á Íslandi né tengjast flutningsneti Íslands.
Um er að ræða græna og vistvæna framkvæmd að því marki að áhrif hennar eru endurkræf þar sem hægt er að fjarlægja vindmyllurnar þegar kemur að lokum nýtingartíma. Að sama skapi er orkuframleiðslan ekki mengandi. Við Íslandsstrendur er hægt að framleiða orku í magni sem aldrei verður nýtt á Íslandi. Þetta verkefni yrði mikilsvert framlag Íslands til að vinna gegn hnattrænni hlýnun. Um 66 milljónir Breta munu áfram þurfa að hlaða símana sína, bílana, keyra lestirnar og ekki síst kveikja á katlinum.
Vindorkuver á hafi úti eru ekki orkuver eins og Íslendingar þekkja, vindorkuver á hafi úti búa til fjölmörg viðvarandi störf, langt umfram það sem Íslendingar eru vanir af rekstri virkjana.[1] Vindorkugarðar á hafi úti kalla á störf verkfræðinga, logsuðumanna, kafara, áhafna viðhaldsbáta, þyrluflugmenn og tæknimenntað fólk í umhirðu vindtúrbína.
Hecate mun styðja við samstarf íslenskra og breskra menntastofnana til að mennta fólk í störfum við vindiðnaðinn. Það er stefna Hecate að mennta, þjálfa og ráða heimafólk til starfa við Kára verkefnið.
Af hverju Ísland?
Það er afar vindasamt úti fyrir Íslandsstöndum og að auki eru veðurkerfi Bretlands og Íslands ólík hvað varðar vind og veður. Þegar logn er á Norðursjó og Írlandshafi er bráð nauðsyn að fá orku annars staðar frá, Kári yrði hlut af orkuöryggi Bretlands. Með verkefninu er þannig stefnt að því að tryggja stöðugra framboð vindorku inn á breska raforkukerfið. Markmið breskra stjórnvalda er að auka gríðarlega vistvæna orku og að fjölbreytt vindorkuframleiðsla minnkar þörf á óvistvænum gasorkuverum í Bretlandi.
Ávinningur fyrir atvinnusvæðið
- Að lágmarki 400 varanleg bein störf vegna Kára verkefnisins, næstum öll á Austur- og Suðausturlandi. Gert er ráð fyrir mun fleiri afleiddum störfum.
- Um 300 heilsársstörf við samsetningu vindmyllanna.
- Þyrlur með fasta viðveru á svæðinu til að þjónusta vindmyllugarðinn. Þessar þyrlur yrðu einnig til reiðu til að aðstoða íslenska viðbragðsaðila þegar þörf krefur.
- Ljósleiðari verður lagður með orkustrengnum og mun gagnastrengurinn ná upp á land. Þannig myndi strengurinn nýtast sem gagnatenging við landið og skapa skilyrði fyrir allskonar þjónustu, s.s. gagnaver sem krefjast stöðugst uppitíma.
- Menntasetur í vindorku verði sett upp á austanverðu Íslandi, til að mennta fólk í vinnu við vindorku og stunda rannsóknir.
Ávinningur fyrir Ísland í heild:
- Árlegar greiðslur í formi leigu eða auðlindagjalds.
- Fjárfestingar á Íslandi vegna framkvæmda, birgða og þjónustu við vindorkuverkefnið verða umtalsverðar og viðvarandi, svo sem í stöðvum til samsetningar og framleiðslu tengdri vindmyllunum, viðhaldsstöðvum, skipum og tækjabúnaði.
- Verkefnið myndi einnig auka fjölbreytni íslensks efnahagslífs, leiða og styðja við innviðauppbyggingar og auka verðmætan útflutning.
- Viðbótarábati fylgir því líka fyrir landið þegar ný þekking og reynsla sem til verður á Íslandi nýtist við uppbyggingu á stórum vindmyllugörðum á hafi úti í öðrum löndum. Þekking „til útflutnings“ yrði til á tíma þar sem nýting vindorku er stóraukin um heim allan.
Ávinningur fyrir umhverfið
- Græn orka kemur frá Íslandi til Bretlands og stuðlar að orkuskiptum, minnkandi útblæstri og kemur í stað mengandi orkuframleiðslu.
- Miðað við orkuframleiðslu Bretlands í dag, myndi Kára verkefnið koma í stað um milljón tonna af losun koltvísýrings á Bretlandi árlega.
- Verkefnið KÁRI verður þannig mikilvægt og umtalsvert framlag Íslands til loftslagslausnarinnar.
Enn á eftir að gera umtalsverðar rannsóknir á vindgæðum, hafsbotni og umhverfi en það er von og vilji aðstandenda verkefnisins að hefja umræður meðal almennings og hagaðila um fýsileika verkefnisins.
[1] Í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nýjar aðferðir við orkuöflun sem lögð var fyrir Alþingi í nóvember 2018 kemur fram að 2,5 störf verða til fyrir hvert uppsett megavatt í vindorku og 0,43 varanleg störf per megavatt á rekstrartíma. Reynsla af vindorkugörðum á hafi úti er að þeir eru mannaflsfrekari en á landi.